Tveir hópar hófu Líf og heilsa lífsstílsþjálfun á Austurlandi á síðasta ári, annar í janúar hinn í júní.
Námskeiðið Líf og heilsa samanstendur af kennslustundum og eftirfylgni, ætlað þeim sem vilja bæta heilsu sína og vellíðan á heildrænan hátt. Í kennslustundum er áhersla lögð á fræðslu, samræður og verkefnavinnu.
Heilsufarsmælingar eru framkvæmdar þrisvar á námskeiðinu í upphafi, á því miðju og í lokin og eru þátttakendur hvattir til að svara HAL-100 spurningalistanum í gegnum Heilsugátt SÍBS.
Skipulagið á námskeiðinu var aðlagað að ólíkum þörfum hópanna tveggja. Fyrri hópurinn hittist aðra hverja viku á 16 vikna tímabili, en seinni hópurinn tvisvar í júní og september og síðan fjórum sinnum í nóvember.
Meðal umfjöllunarefnis var markmiðasetning, vani, hugarfar, andlegt heilbrigði s.s. streita, jafnvægi, hugleiðsla, núvitund og þakklæti. Farið var í mikilvægi svefns og hreyfingar og hvernig á að koma sér af stað í reglulega hreyfingu. Rætt var um næringu og áhrif mataræðis á heilsu. Þátttakendur fengu leiðbeiningar um gerð matseðla, matardagbókar og fleira gagnlegt.
Áhersla er lögð á einstaklingsmiðaða nálgun og að hver þátttakandi skoði hvar hann er staddur og hvaða breytingar hann vill eða þarf að gera á lífsstíl sínum. Öll erum við einstök og það sama hentar ekki öllum.
Þátttakendur setja sér viðráðanleg markmið með áherslu á hægar breytingar, í skilgreindum þrepum, eitt skref í einu.
Eftirfylgni er einstaklingsmiðuð þar sem hver og einn fær aðstoð við markmiðasetningu. Í mánaðarlegum samtölum ræða leiðbeinandi og þátttakandi markmiðin og hvort þörf er á breytingum..
Enn sem komið er er reynslan af prufukeyrslu námskeiðsins góð og námsmat frá fyrsta hópnum er jákvætt.
Sem hluti af Líf og heilsa verkefninu skipulagði Austurbrú í samvinnu við Fjarðabyggð, heilsueflandi samfélag, Heilsu og lífsstílsdag í Neskaupstað í maí 2019.
Dagurinn byrjaði með ókeypis heilsufarsmælingu þar sem þátttakendur voru hvattir til að taka þátt í spurningakönnun á Heilsugátt SÍBS. Í framhaldinu voru fjórir fyrirlestrar á dagskrá.
Fyrst kynnti Hrönn Grímsdóttir hjá Austurbrú Líf og heilsa verkefnið og lífsstílþjálfun.
Bjarki Ármann Oddsson íþrótta- og æskulýðsfulltrúi hjá sveitarfélaginu Fjarðabyggð ræddi um heilsueflandi samfélagið Fjarðabyggð. Það felur í sér að líkamleg, andleg og félagsleg heilsa íbúa er höfð í huga við alla stefnumótun.
Fyrri gestafyrirlesari dagsins var Sigrún Þuríður Geirsdóttir sem fyrst íslenskra kvenna synti ein yfir Ermarsundið. Hún sagði ótrúlega sögu sína af því hvernig hún fór frá því að vera „sófakartafla“ yfir í að sigra Ermasundið sem oft er kallað „Mount Everest“ sundfólksins.
Að lokum talaði Elísabet Reynisdóttir, næringarfræðingur, um mikilvægi góðrar næringar fyrir heilsu og vellíðan fólks. Hitaeiningar segja ekki alla söguna og getur fólk verið vannært og í yfirþyngd á sama tíma. Allir ættu að drekka vatn við þorsta og borða fimm skammta af ávöxtum og grænmeti á dag.
Hrönn Grímsdóttir var fundarstjóri og leiddi jógaæfingar og slökun milli atriða. Eftir fundinn skelltu margir þátttakendur sér í sjósund.
Frá því að síðasta fréttabréf kom út í apríl 2019 hefur ýmislegt gerst hjá námskeiðshópunum fimm í Noregi og meðal lífsstílsþjálfaranna sem tengjast þeim. Hóparnir eru staðsettir í norður- og suðurhluta Noregs og skilja yfir 1.800 km á milli þessara staða. Af þeim sökum eru flestir fundir skipulagðir í fjarfundi. Þó tókst að halda árangursríkan tveggja daga fund með leiðbeinendum á sjúkrahúsi Samtaka hjarta- og lungnasjúklinga (LHL) við Gardermoen (utan við Osló) í júní. Markmið fundarins var að undirbúa leiðbeinendur fyrir framkvæmd heilsufarsmælinga og fyrirlögn HAL-100 spurningalistans auk þess að kynna þá fyrir námsvefnum. Fundir sem þessir eru mikilvægir þar sem þátttakendur hittast og læra hver af öðrum.
Námskeiðshóparnir í Noregi eru samsettir og stjórnað af meðlimum í Samtökum hjarta- og lungnasjúklinga (LHL) í Vadsø og Kirkenes sem er norður í Finnmörk og Ullensaker og Gjerdrum við Gardermoen í suðri.
Á LHL heilsugæslustöðinni í Osló er hópur kvenna af erlendum uppruna leiddur áfram að heilbrigðisstarfsmönnum sem hafa fengið viðeigandi þjálfun. Allir hóparnir voru áhugasamir um heilsufarmælingarnar og HAL-100 spurningarlistann. Fyrir tilviljun var á sama tíma í gangi verkefni þar sem almenningi á Oslóarsvæðinu bauðst blóðfitumæling. Námskeiðshóparnir þrír í suðri voru því heppnir að fá blóðfitu sína mælda af fagfólki.
Í september og október voru gerðar heilsufarsmælingar á hópunum (mynd). Það er merkilegt hversu vel leiðbeinendum tókst að safna saman fólkinu úr námskeiðshópunum til að kanna blóðþrýsting, súrefnismettun, mittismál, blóðsykur og púls.
Í Palermo á Ítalíu er unnið að Líf og heilsa verkefninu og á síðustu mánuðum hefur ýmislegt verið gert til að efla og kynna verkefnið.
Opinn viðburður var haldinn og var hann vel sóttur af konum og körlum úr hópi skjólstæðinga samtakanna “Mission Jesus”, sem hafa sinnt félagsþjónustu frá árinu 2001 m.a. með rekstri heimila fyrir þau sem ekki eiga í önnur hús að venda.
Á viðburðinum var fjallað um leiðir til að bæta og viðhalda heilsu og fyrirbyggja lífsstílstengda sjúkdóma. Í hópastarfi voru líflegar umræður um heilsu almennt.
Ennfremur hefur CESIE tekið þátt í þróun á námsvef fyrir verkefnið Líf og heilsa sem skiptist í tvo hluta:
1 Gagnvirkt svæði fyrir skipuleggjendur námskeiða og leiðbeinendur.
2 Opið svæði þar sem afurðir verkefnisins eru birtar svo sem niðurstöður gloppugreiningar, lokaútgáfa námskrár, kennsluleiðbeiningar, námsefni o.fl.
Slóðin á námsvefinn er: lifeandhealth-project.eu/course/.
Til viðbótar hefur CESIE á þessum mánuðum lagt HAL-100 spurningalistann fyrir fjölda fólks og hjálpar því þannig að fylgjast með heilsu sinni og skilja hve einfalt er að fylgjast með gildunum sínum.
Heilsufarsmælingarnar geta verið mikils virði fyrir samfélagið.
Verkefnið gengur mjög vel og hefur öll endurgjöf það sem af er verið jákvæð.
Til að fylgja verkefninu eftir og styðja við framgang þess á evrópskum vettvangi, var þriðji fundur verkefnisins haldinn í Palermo síðastliðið haust. Þar mættu fulltrúar allra samstarfsaðilanna og tóku virkan þátt.
Á fundinum ræddu samstarfsaðilar um næstu skref, niðurstöður og áhrif verkefnisins.
The European Commission support for the production of this publication does not constitute an endorsement of the contents which reflects the views only of the authors, and the Commission cannot be held responsible for any use which may be made of the information contained therein.
|